Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 320/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 320/2021

Fimmtudaginn 30. september 2021

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. júní 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 21. júní 2021, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði húsnæðisbætur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) á tímabilinu janúar til og með júlí 2020. Með bréfi HMS, dags. 21. júní 2021, var kæranda birt lokauppgjör vegna ársins 2020 þar sem fram kom að hann hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur að fjárhæð 66.578 kr. 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 27. júní 2021. Með bréfi, dags. 29. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst með bréfi, dags. 3. ágúst 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. ágúst 2021. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá kæranda þann 21. september 2021.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru óskar kærandi eftir því að tekjur í ágúst, september, október, nóvember og desember verði reiknaðar inn í lokauppgjör ársins 2020. Einnig óskar kærandi þess að umsókn um húsnæðisbætur verði látin gilda fyrir janúar, febrúar og mars 2021 en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi talið umsókn þeirra óvirka þá mánuði. Það hafi verið sök starfsmanns HMS sem hafi sagt kæranda að hann þyrfti hvorki að gera neitt né sækja um aftur þegar hann hafi hringt í HMS á árinu 2020 eftir að hafa fengið bréf frá stofnuninni í september 2020. Ef kærandi hefði vitað að þess þyrfti hefði hann gert það. Í apríl 2021 hafi kærandi komist að því að hann þyrfti að sækja um aftur. Þá hafi hann sótt um og umsóknin verið samþykkt.

Kærandi greinir frá því að hann sé búinn að búa í sama félagslega húsnæðinu með eiginkonu sinni og fjórum börnum frá því þau hafi komið til Íslands þann 19. janúar 2016 sem kvóta-flóttafólk. Árlegar tekjur þeirra hafi aldrei farið yfir tekjumörk þess að eiga rétt á húsnæðisbótum. Starfsmenn HMS viti að tekjur þeirra hækki á sumrin þegar annar eða báðir eldri synir þeirra vinni yfir sumartímann. Það hafi aðeins verið sumarið 2020 sem tekjur þeirra hafi farið yfir tekjumörk húsnæðisbóta en tekjur þeirra hafi lækkað eftir það og meðaltekjur þeirra árið 2020 hafi verið um 818.000 kr. Að mati kæranda eigi þau því rétt á húsnæðisbótum fyrir allt árið 2020. Það sem af er árinu 2021 hafi meðaltekjur þeirra ekki farið yfir 830.000 kr.

Tekjur þeirra hafi alltaf verið upp að mörkum þess að eiga rétt á húsnæðisbótum sem veittar séu af ríkinu til velferðar fólki. Af þeim sökum velti kærandi því fyrir sér hvers vegna starfsmenn HMS krefjist þess að svipta þau bótunum, þrátt fyrir að það hafi verið sök starfsmanns þeirra. Kærandi tekur fram að þau séu að kljást við ýmsar áskoranir og vandamál.

Í athugasemdum kæranda, dags. 21. september 2021, greinir kærandi frá því að hann eigi inni vangreiddar húsnæðisbætur að fjárhæð um 110.000 kr. en þess í stað krefji HMS hann um 63.000 kr. Með því tapi kærandi 173.000 kr. Kærandi spyrji hvaða réttlæti sé fólgið í því. Meðaltekjur þeirra á árinu 2020 hafi verið rétt rúmlega 818.078 kr. og að mati kæranda eigi hann því rétt á 33.554 kr. í húsnæðisbætur á mánuði, eða um 402.648 kr. á ári. Hann hafi einungis fengið greiddar 292.626 kr. í húsnæðisbætur og því vanti 110.022 kr. upp á. Að mati kæranda eigi hann því að fá greiddar 110.022 kr. en ekki að greiða sjálfur um 63.000 kr.

Að mati kæranda eigi að vera unnið með málefni húsnæðisbóta eins og skatta. Ef viðkomandi greiði of mikið fái hann ofgreiðsluna greidda árinu á eftir. Ef viðkomandi greiði minna en hann eigi að gera, greiði hann á árinu á eftir. Kærandi spyrji hvort yfirvöld geti sagt einstaklingi sem hafi verið búsettur á Íslandi allt árið að persónuafsláttur hans hafi ekki verið í gildi í nokkra mánuði. Að mati kæranda eigi það sama að eiga við um húsnæðisbætur. Kærandi geti fært sönnur á að hann og fjölskylda hans hafi verið búsett á Íslandi allt árið 2020 í sömu íbúðinni síðan í janúar 2016. Árstekjur þeirra hafi verið 9.828.936 kr. sem þýði að meðalmánaðartekjur þeirra hafi verið um 819.078 kr. Kærandi spyrji því hvers vegna hann hafi verið sviptur húsnæðisbótunum.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að kærandi hafi lagt inn umsókn um húsnæðisbætur, dags. 23. desember 2016, og að hann hafi fengið greiddar húsnæðisbætur frá febrúar 2017 til júlí 2020. Eftir að umsókn kæranda hafi verið samþykkt hafi honum fyrst verið send tekju- og eignaáætlun samhliða samþykktarbréfi, dags. 19. janúar 2017, og svo endurreikningsbréf á ársfjórðungsfresti þar sem fram hafi komið á hvaða tekjum HMS hafi byggt við útreikning á húsnæðisbótunum hans, en síðasta endurreikningsbréfið sé dagsett 27. júlí 2020. Þá hafi kæranda jafnframt verið leiðbeint um rétt hans til að andmæla samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar sem engar athugasemdir hafi borist frá kæranda hafi HMS lagt fyrrnefndar áætlanir til grundvallar við útreikning á húsnæðisbótunum kæranda.

Þann 18. ágúst 2020 hafi afgreiðslu umsóknar kæranda verið frestað vegna þess að tekjuútreikningur hafi leitt í ljós að tekjur heimilismanna myndu skerða húsnæðisbætur að fullu. Í bréfi til kæranda hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu hans til að unnt væri að meta rétt hans til húsnæðisbóta og jafnframt hafi verið óskað eftir gögnum eða upplýsingum sem staðfest gætu að eigna- og/eða tekjustaða hafi tekið breytingum. Kæranda hafi verið gefinn 15 daga frestur til að veita þessar upplýsingar. Kærandi hafi lesið bréf HMS þann 19. ágúst 2020.

Þar sem kærandi hafi hvorki skilað umbeðnum gögnum né gert neinar athugasemdir hafi afgreiðslu umsóknar hans verið synjað á framangreindum forsendum með bréfi þann 10. september 2020. Í því bréfi hafi komið fram að kærandi geti sótt um að nýju ef aðstæður breytist og að hægt sé að óska eftir endurupptöku. Þetta bréf hafi kærandi lesið þann 15. september 2020, en engar athugasemdir verið gerðar fyrr en í apríl 2021.

Þann 4. apríl 2021 hafi kærandi sótt um að nýju. Sama dag segist kærandi ekki hafa gert sér grein fyrir því að það þyrfti að sækja um að nýju og að hann hafi hringt inn á sínum tíma og fengið þau skilaboð að ekki þyrfti að sækja um að nýju. Kærandi hafi farið fram á að réttur hans til húsnæðisbóta yrði endurreiknaður. Kærandi hafi ítrekað erindi sitt með bréfi þann 9. apríl 2021. Erindi kæranda varðandi endurupptöku málsins hafi í kjölfarið verið vísað til Húsnæðisbótanefndar HMS sem hafi það hlutverk að fjalla um undanþágubeiðnir og sérstök álitaefni sem komi upp við afgreiðslu umsókna um húsnæðisbætur. Nefndin leggi jafnframt mat á hvort réttur til húsnæðisbóta sé til staðar við þau skilyrði sem nauðsynlegt sé að uppfylla, sé ekki kveðið á um það með skýrum hætti í lögum. Húsnæðisbótanefnd hafi tekið fyrrnefnt erindi fyrir á fundi sínum þann 6. maí 2021 og komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði fyrir endurupptöku væru ekki uppfyllt og hafi beiðni um endurupptöku því verið synjað. Í bréfi til kæranda, dags. 26. maí 2021, (dagsetning sé röng í bréfi, en sé rétt í kerfi) sé ákvörðun um höfnun á endurupptöku tilkynnt kæranda og segi þar að ekki hafi þótt sýnt fram á að byggt væri á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum eða að neitt nýtt hefði komið fram sem gæfi tilefni til endurupptöku.

Kærandi hafi óskað eftir nánari útskýringum á lokauppgjöri ársins 2020 þann 24. júní 2021. Þeirri fyrirspurn hafi verið svarað með tölvupósti þann 25. júní og kæranda bent á að eingöngu væri miðað við tekjur þann tíma sem umsókn væri í gildi. Ítrekað hafi verið að kærandi gæti kært ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála sem hann hafi gert.

Af kærunni megi ráða að kærandi haldi því fram að endurreikningur vegna lokauppgjörs húsnæðisbóta ársins 2020 hafi ekki verið réttur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um tekjur og eignir kæranda, enda telji hann að taka hefði átt tillit til tekna í ágúst-, september-,     [október-], nóvember- og desembermánuðum 2020. Jafnframt fari kærandi fram á að núverandi umsókn verði látin gilda fyrir janúar, febrúar og mars 2021.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur komi fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðist til umsækjanda og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðist við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr., og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr.

Í 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur segi að við móttöku umsóknar skuli HMS áætla tekjur og eignir heimilismanna, 18 ára og eldri, svo lengi sem umsókn haldi gildi sínu. Þá skuli HMS veita umsækjanda kost á að koma að athugasemdum um áætlunina samkvæmt 1. mgr. en geri umsækjandi ekki athugasemdir skuli stofnunin leggja áætlunina til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta og greiðsluáætlun samkvæmt 18. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar. Telji umsækjandi áætlunina gefa ranga mynd af áætluðum tekjum og eignum heimilismanna á viðkomandi tímabili skuli hann tilkynna stofnuninni um það innan veitts frests og leggja fram gögn því til staðfestingar eftir því sem þörf sé á að mati HMS, sbr. 4. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar komi fram að HMS skuli gera greiðsluáætlun er byggist á útreikningi húsnæðisbóta samkvæmt 20. gr. laga um húsnæðisbætur. Í greiðsluáætlun skuli koma fram áætlaðar mánaðarlegar greiðslur húsnæðisbóta á því tímabili sem áætlun samkvæmt 17. gr. taki til ásamt öðrum þeim forsendum er útreikningur húsnæðisbóta byggist á. Í 1. mgr. 20. gr. laga um húsnæðisbætur sé kveðið á um útreikning húsnæðisbóta, en þar segi í fyrri málsgrein ákvæðisins að til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta hvers mánaðar skuli framkvæmdaraðili leggja 1/12 af áætluðum tekjum og eignum heimilismanna, 18 ára og eldri, á því almanaksári þegar húsnæðisbætur séu greiddar ásamt fjölda heimilismanna og húsnæðiskostnaði, sbr. einnig 16. til 19. gr.

Í 2. mgr. sömu greinar komi fram að HMS skuli byggja áætlanir sínar á nýjustu upplýsingum á hverjum tíma, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar. Hér sé átt við nýjustu upplýsingar sem HMS afli um tekjur og eignir heimilismanna úr skattframtölum og staðgreiðsluskrá skattyfirvalda á grundvelli 15. gr. laga um húsnæðisbætur, auk upplýsinga sem umsækjandi hafi látið stofnuninni í té, sbr. 14. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds bendi HMS á að útreikningur húsnæðisbóta byggi meðal annars á fyrirliggjandi upplýsingum um tekjur kæranda sem stofnunin afli frá skattyfirvöldum að undangengnu umboði hans. Samkvæmt bréfi, dagsettu 18. ágúst 2020, hafi kærandi fengið senda tekju- og eignaáætlun sem hafi byggt á fyrirliggjandi upplýsingum á þeim tíma og tekið mið af heildartekjum, þar með töldum fjármagnstekjum, heildareignum, ásamt orlofs- og desemberuppbótum. Í framangreindu bréfi komi fram að tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir því að tekjur yrðu 1.122.948 krónur og að slíkt myndi leiða til fullrar tekjuskerðingar. Gefinn sé 15 daga frestur til að veita skriflega afstöðu samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 75/2016. Þar sem engar athugasemdir hafi borist hafi verið tekin ákvörðun á grundvelli 17. gr. sömu laga um að synja umsókninni.

Að framangreindu virtu liggi ljóst fyrir að HMS hafi við gerð tekjuáætlana ekki haft upplýsingar um hverjar rauntekjur kæranda og heimilismanna yrðu á þeim tíma. Auk þess hafi kærandi hvorki upplýst stofnunina um hverjar raunverulegar tekjur hans og heimilismanna yrðu né hafi hann gert athugasemdir við umrædda áætlun. Af þeim sökum hafi stofnuninni ekki gefist færi á að uppfæra tekjurnar miðað við nýjustu upplýsingar sem ef til vill hafi legið fyrir á þeim tíma hjá kæranda. HMS bendi á að á kæranda hvíli upplýsingaskylda gagnvart stofnuninni um þau atriði sem kunni að hafa áhrif á rétt hans til húsnæðisbóta samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga um húsnæðisbætur og því hafi kærandi átt að upplýsa HMS um að tekjurnar hans yrðu hærri þegar stofnunin hafi sent honum bréf, dags. 18. ágúst 2020. Þar sem kærandi hafi ekki brugðist við því bréfi, svo sem með því að gera athugasemdir við útreikning, sé það afstaða HMS að kærandi verði að bera hallann af því að hafa ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga um húsnæðisbætur.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um húsnæðisbætur skuli HMS framkvæma lokauppgjör húsnæðisbóta þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. HMS hafi sent kæranda bréf, dags. 21. júní 2021, um niðurstöðu lokauppgjörs húsnæðisbóta vegna ársins 2020. Í bréfinu komi fram að kærandi hafi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur sem nemi 66.578 krónum.

Eins og áður hafi komið fram liggi fyrir að eingöngu hafi verið stuðst við tekjur þá mánuði sem umsókn hafi verið í gildi, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 75/2016. Við gerð tekjuáætlunar fyrir bótatímabilið hafi HMS ekki haft upplýsingar um hverjar raunverulegar tekjur kæranda yrðu á ársgrundvelli og slíkt hafi ekki komið til álita við gerð lokauppgjörs vegna þess að umsókn hafi verið í gildi hluta úr almanaksári, enda höfðu húsnæðisbætur fallið niður, sbr. 5. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 með tilliti til 17. gr. sömu laga.

Samkvæmt 26. gr. laga um húsnæðisbætur beri umsækjanda að endurgreiða ofgreiddar húsnæðisbætur. Ljóst sé af skattframtali kæranda og niðurstöðu lokauppgjörsins að kærandi hafi fengið hærri húsnæðisbætur greiddar en hann hafi átt rétt á og því beri honum samkvæmt framangreindu ákvæði að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. HMS bendi á að kærandi geti óskað eftir því við stofnunina að semja um fyrirkomulag endurgreiðslunnar, svo sem með greiðsludreifingu. Þá geti kærandi einnig vegna sérstakra aðstæðna, eins og fram hafi komið í lokauppgjörsbréfi kæranda, sótt um niðurfellingu á endurgreiðslukröfunni, sbr. 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016.

HMS hafni kröfu kæranda um greiðslu fyrir janúar, febrúar og mars 2021 á forsendum 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016. Þar segi að óheimilt sé að reikna húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá fyrsta degi umsóknarmánaðar.

HMS geri kröfu um að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 21. júní 2021, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta vegna ársins 2020, að fjárhæð 66.578 kr. Af kæru má ráða að kærandi sé einnig að kæra ákvörðun stofnunarinnar frá 10. september 2020 þar sem umsókn hans um húsnæðisbætur var synjað á þeirri forsendu að tekjur/eignir allra heimilismanna skertu bætur að fullu. Kærandi fór fram á endurupptöku ákvörðunarinnar hjá HMS sem synjaði þeirri beiðni 26. maí 2021. Verður fyrst vikið að þeirri ákvörðun.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Við mat á því hvort ákvörðun hefur byggst á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik“, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, er horft til þess hvort fram séu komnar nýjar eða fyllri upplýsingar um málsatvik sem telja má að hefðu haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hafa ekki komið fram í málinu upplýsingar sem leiða eigi til þess að HMS skuli taka ákvörðun sína frá 10. september 2020 til endurskoðunar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, en fyrir liggur að tekjur fjölskyldu kæranda höfðu hækkað þá um sumarið. Þá verður ekki séð að 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi við í máli kæranda.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun HMS um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 10. september 2020 staðfest.   

Verður þá vikið að ákvörðun HMS frá 21. júní 2021 um innheimtu ofgreiddra bóta. Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr., og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 75/2016 er umsækjanda skylt að veita framkvæmdaraðila allar þær upplýsingar og gögn þeim til staðfestingar sem óskað er eftir og nauðsynlegar eru til að staðreyna rétt hans til húsnæðisbóta. Enn fremur er skylt að upplýsa um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans eða heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á rétt viðkomandi til húsnæðisbóta samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hann fær greiddar húsnæðisbætur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa HMS um meðal annars tekjubreytingar á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 25. gr. laganna er kveðið á um endurreikning á húsnæðisbótum. Þar segir í 1. mgr. að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. kemur fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Í 3. mgr. kemur fram að leiði endurreikningur samkvæmt 1. og 2. mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbæturnar samkvæmt 26. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum bar á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.

Kærandi þáði húsnæðisbætur á árinu 2020, eða til og með júlí 2020. Samkvæmt tekjuáætlunum, sem lagðar voru til grundvallar við útreikning húsnæðisbóta á því tímabili, voru mánaðarlegar heildartekjur heimilismanna ýmist áætlaðar 845.843 kr., 504.359 kr., 561.132 kr. og 799.201 kr. Í síðasta endurreikningsbréfi til kæranda, dags. 18. ágúst 2020, voru þær áætlaðar 1.122.948 kr. sem leiddi til þess að umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að tekjur skertu bætur að fullu. Við lokauppgjör ársins 2020 reyndust tekjur heimilismanna á tímabilinu janúar til og með júlí 2020 vera hærri en tekjuáætlanir gerðu ráð fyrir, eða að meðaltali 763.489 kr. samkvæmt lokauppgjöri frá 21. júní 2021. Það leiddi til ofgreiðslu að fjárhæð 66.578 kr. sem kæranda ber í samræmi við ákvæði 26. gr. laga nr. 75/2016 að endurgreiða. Ákvörðun HMS um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta er því staðfest.

Í máli þessu liggur einnig fyrir að kærandi sótti á ný um húsnæðisbætur með umsókn, dags. 4. apríl 2021. Kærandi óskaði samhliða eftir að fá greiddar húsnæðisbætur fyrir janúar, febrúar og mars 2021. Kærandi kveðst hafa hringt í HMS í kjölfar ákvörðunar frá 10. september 2020 og fengið þær  upplýsingar að hann þyrfti ekki að sækja um aftur, að umsóknin yrði endurreiknuð síðar. Samkvæmt gögnum málsins eru engar athugasemdir í kerfi HMS né gögn sem staðfesta þá frásögn kæranda.

Í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 kemur fram að húsnæðisbætur komi til greiðslu í fyrsta skipti fyrsta dag næsta almanaksmánaðar eftir að réttur til bóta hafi verið staðreyndur. Húsnæðisbætur skuli þó reiknast frá og með þeim almanaksmánuði þegar framkvæmdaraðili móttekur umsókn um húsnæðisbætur vegna leigutíma þess almanaksmánaðar eða hluta úr þeim mánuði, hafi leigutími hafist síðar en fyrsta dag almanaksmánaðar. Óheimilt sé að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann.

Fyrir liggur að umsókn kæranda var samþykkt með ákvörðun, dags. 12. apríl 2021, og fékk hann greiddar húsnæðisbætur frá umsóknarmánuði, apríl 2021. Samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 er óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði. Að því virtu er ákvörðun HMS um að greiða kæranda húsnæðisbætur frá og með apríl 2021 staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 26. maí 2021, um að synja beiðni A, um endurupptöku ákvörðunar frá 10. september 2020, er staðfest.

Ákvarðanir stofnunarinnar, dags. 12. apríl 2021, um greiðslu húsnæðisbóta og 21. júní 2021, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta, eru einnig staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum